KR með tak á Breiðablik

 Það hefur flest verið stöngin út hjá KR seinni hluta keppistímabilsins. Skemmst er að minnast tapleikja gegn Stjörnunni og FH þar sem KR var með leikina í sínum höndum en augnabliks einbeitingarleysi í varnarleik eyðilagði allt. Fleiri stig hafa farið forgörðum fyrir hreinan og beinan klaufaskap og svo virðist sem gæfuleysið hafi farið vaxandi. En okkur gengur vel á móti Blikum. 
 
KR vann í kvöld þriðja sigur sinn á Breiðabliki í sumar, 0-2, á Kópavogsvelli. Fyrri deildarleik liðanna í sumar, á Meistaravöllum, lauk með 3-1 sigri KR, og KR sló Blika út úr Mjólkurbikarnum um daginn með 4-2 sigri. Báðir deildarleikirnir gegn Breiðablik í fyrra unnust líka. 
 
Leikurinn í kvöld var fjörugur en Ægir Jarl Jónasson kom KR yfir snemma leiks eftir laglega sókn. Síðara markið koma á lokakafla leiksins þegar Blikar skoruðu sjálfsmark en Óskar Örn Hauksson var þar aðgangsharður og átti sinn þátt í markinu. 
 
Óskar Örn lék í kvöld sinn 322. deildarleik og er þar með leikjahæsti maður deildarinnar frá upphafi. 
 
Þetta voru dýrmæt stig í baráttunni um Evrópusæti en titilbarátta er nánast úr sögunni. 

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012