KR í réttu sæti

Dýrðardagur var í Lautinni í Árbænum í dag. Fylkismenn hituðu upp fyrir stórleik Fylkis með tónlistaratriðum og veitingum og veðrið lék við borgarbúa. Rúmlega tvö þúsund manns voru á stórskemmtilegum leik Fylkis og KR og stemningin var prýðileg. 
 
Fylkir átti fyrsta færi leiksins er Sam Hewson átti skot rétt fram hjá markinu. 
 
Eftir það tóku KR-ingar öll völd á vellinum og áttu nokkur hættuleg færi í fyrri hálfleik án þess að skoða. 
 
Á 17. mínútu meiddist hinn mjög svo efnilegi Stefán Árni Geirsson eftir að virtist vægt samstuð við Fylkismann. Haltraði hann út af og mun hafa bólgnað mjög á ökkla eftir atvikið. Óskar Örn Hauksson, sem byrjaði á bekknum annan leikinn í röð, kom inn á í staðinn. 
 
Eftir mjög líflega byrjun róaðist leikurinn nokkuð eftir þessa innáskiptingu en KR var þó með öll völd á vellinum út hálfeikinn án þess að skora. 
 
KR byrjaði síðari hálfleikinn með látum og virtist brotið á Kristjáni Flóka í teignum á 49. mínútu en ekki var dæmt á það. 
 
Mínútu síðar kom fyrsta markið er Pablo Punyed átti frábærlega tímasett hlaup inn í teiginn og skoraði með viðstöðulausu skoti eftir frábæra fyrirgjöf frá Kennie. 
 
Sjö mínútum síðar skoraði Óskar Örn Hauksson með skoti úr teignum utanverðum, markvörður Fylkis var í boltanum en tókst ekki að forða marki. 
 
Tobias Thomsen, sem kom inn á fyrir Kristján Flóka, seint í leiknum skoraði þriðja markið eftir herfileg mistök markvarðar Fylkis sem var kominn út úr teignum og Tobias renndi boltanum í mark. 
 
KR átti slatta af færum í síðari hálfleik og hafði yfirburði. Fylkismenn fengu þó sannarlega sín færi og Beitir markvörður varði þrisvar frábærlega í síðari hálfleik. 
 
KR er nú með tveggja stiga forystu á toppnum en Valur er í öðru sæti. Rétt er að hafa í huga að Stjarnan á leiki inni vegna sóttkvíar og hefur tapað fæstum stigum í deildinni. 
 
Næsti leikur KR er heimaleikur gegn botnliðinu Fjölni á miðvikudagskvöld kl. 20.15, sem er nokkuð óvenjulegur leiktími. 
 
 
 

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012