Besti leikur KR í sumar

KR vann Breiðablik 3-1 í frábærum leik í toppslag í Pepsi-Max deildinni að Meistaravöllum. Við sigurinn fór KR upp í annað sæti deildarinnar en Fylkir er kominn á toppinn eftir óvæntan 1-2 útisigur gegn FH. Svo skemmtilega vill til að Fylkir og KR eigast við næstkomandi sunnudag í Lautinni í Árbænum, og það verður því toppslagur. 
 
KR byrjaði leikinn af miklum krafti og strax á annarri mínútu skoraði Stefán Árni Geirsson stórkostlegt mark eftir mikinn einleik þar sem hann fór illa með vörn Blika. 
 
Pablo Punyed bætti við öðru marki á 9. mínútu eftir sendingu frá Finni Orra Margeirssyni, en skot Pablos sveif yfir markvörð Blika. 
 
KR fékk nokkur færi í viðbót til að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. 
 
Blika minnkuðu muninn með frábæru marki úr aukaspyrnu á 33. mínutu. Eftir það voru gestirnir töluvert ógnandi. Snemma í síðari hálfleik fór boltinn tvisvar í tréverkið hjá KR og þó að bæði atvik hafi verið nokkuð slysaleg þá var sóknarþungi Blika nokkur framan af hálfleiknum. 
 
KR vann sig inn í leikinn að nýju og Pablo Punyed innsiglaði sigurinn með stórkostlegu marki úr langskoti á 82. mínútu. 
 
Frábær leikur þar sem allir leikmenn KR áttu góðan dag. 

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012