Klókir sem fyrr

KR vann Víking 2-0 í skrautlegum leik þar sem samtals þrír miðverðir Víkinga fengu rautt spjald. KR átti nokkuð undir högg að sækja framan af leiknum sem Víkingar stjórnuðu nokkuð. Hvorugt liðið fékk þó mörg opin færi. 
 
KR er klókt og seigt lið, það hefur fyrir löngu sannast og á 25. mínútu varð lykilatvik til að snúa leiknum við. KR átti þá frábæra sókn þar sem Pablo Punyed stakk boltanum inn fyrir á Kristján Flóka sem var við það að sleppa í gegnum vörn Víkinga er Kári Árnason kippti honum niður. Kári fékk beint rautt spjald. 
 
Með ákafa og dugnaði tókst Víkingum að hafa í fullu tré við KR-inga út hálfleikinn þó að þeir væru einum færri. 
 
Jafnræði var líka með liðunum framan af síðari hálfleik þó að KR-ingar væru fleiri á vellinum. Víkingar sýndu gríðarlega baráttu en það var líka ofsi í mannskapnum, mikið var um háskalegar tæklingar og pirring. 
 
Pressan jókst nokkuð á mark Víkinga og á 61. mínútu skoraði Kristján Flóki laglegt mark eftir fyrirgjöf frá Atla Sigurjónssyni. 1-0. 
 
Á 78. mínútu kom annað rauða spjaldið. Sölvi Ottesen hrinti þá Stefáni Árna Geirssyni niður í völlinn og fór svo með olnbogann í andlit hans. Pablo Punyed ýtti reyndar við Sölva og hugsanlegt að þessa vegna hafi hann endað með olnbogann framan í Stefáni en Sölvi hrinti hins vegar Stefáni hjálparlaust niður í völlinn. 
 
Á 85. mínútu fékk Halldór Smári Sigurðsson síðan þriðja rauða spjald Víkinga fyrir afar ruddalega tæklingu á Kennie Chopart. Kennie var færður á börum af vellinum og er meiddur eftir þetta brot. 
 
Á 88. mínútu skoraði Pablo síðan síðara markið eftir sendingu frá Ægi Jarli Jónssyni, sláin inn. 
 
Í viðtali á Fotbolti.net eftir leikinn taldi Arnar Gunnlaugsson að öll rauðu spjöldin þrjú hefðu verið röng. Mátti á Arnari, sem af einhverjum ástæðum talaði að hálfu leyti ensku í viðtalinu og hálfu leyti íslensku, skilja að Kári og Sölvi væru allt of reyndir leikmenn til að fá rautt spjald og þess vegna hlyti það að vera dómaramistök. Halldór Smári væri síðan allt of mikið ljúfmenni til að fara í tveggja fóta tæklingu og því væri það ekki tveggja fóta tækling né rautt spjald. 
 
Staðreyndin er hins vegar sú að er leið á leikinn urðu Víkingar sé til skammar með glórulausri framgöngu sinni á vellinum, spjöldin voru verðskulduð og fleiri gróf brot sáust frá gestunum. 
 
Næsti leikur KR verður ekki fyrr en 13. júlí þegar við tökum á móti toppliði Breiðabliks, þar sem leikurinn gegn Stjörnunni í næstu umferð frestast vegna sóttkvíar Stjörnuliðsins. 
 
 
 
 
 

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012