Kaflaskiptur leikur á Skaganum

KR vann afar kærkominn og dýrmætan útisigur á ÍA í brakandi blíðu í kvöld, 1-2, í kaflaskiptum en fjörugum leik. Stórleikur Beitis í markinu og mjög góðar rispur sóknarbakvarðarins Kristinn Jónssonar voru meðal þess sem skóp sigurinn. KR lenti undir í leiknum en sneri blaðinu við með tveimur mörkum á stuttum kafla. 
 
KR byrjaði leikinn betur og hafði stöðuyfirburði. Á elleftu mínútu komst Óskar Örn í dauðafæri en markvörður Skagamanna varði frá honum. Hann varði síðan aftur í frákastinu frá Pablo Punyed en Kristján Flóki var orðinn rangstæður þegar honum tókst að koma boltanum í markið. 
 
Um átta mínútum síðar stýrði Kristján Flóki boltanum í hliðarnetið eftir sendingu inn í teiginn. Það var sannkallað dauðafæri. 
 
Seinni hluta fyrri hálfleiks tóku Skagamenn hins vegar leikinn yfir og á síðasta korteri hálfleiksins gerðu þeir harða hríð að marki KR. Beitir varði tvisvar stórglæsilega úr dauðafærum og Skagamenn skutu yfir markið úr þriðja færinu. 
 
Í byrjun síðari hálfleiks fékk Kristján Flóki eitraða stungusendingu inn fyrir vörn Skagamanna en markvörðurinn varði frá honum. Á sömu mínútu skoruðu Skagamenn afar laglegt mark. Boltinn kom fyrir markið, barst frá sóknarmanni út í teig til Tryggva Hrafns Haraldssonar sem skoraði með óverjandi skoti. 
 
Fimm mínútum síðar náði Aron Bjarki að jafna með skoti af stuttu færi inni í teig eftir töluvert klafs. 
 
Sigurmarkið kom á 61. mínútu eftir glæsilega sókn þar sem Kristinn Jónsson sendi á Kristján Flóka sem skoraði fram hjá markverði Skagamanna. 
 
KR átti nokkur góð færi eftir þetta og sömuleiðis áttu Skagamenn nokkrar hættulegar sóknir. Þeir pressuðu stíft á lokakaflanum en tókst ekki að jafna. 
 
Nokkrum mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma fékk KR að virtist fremur ódýra vítaspyrnu. Pálmi Rafn skaut hins vegar í stöngina og framhjá úr vítinu. 
 
Afar dýrmætur sigur í kvöld og KR sýndi klókindi og seiglu er liðið sneri við taflinu eftir að hafa lent undir. Skagamann léku vel í kvöld og sýndu fjölbreyttari leik en gegn KR í fyrra. Stundum lágu þeir til baka og beittu hættulegum skyndisóknum en stundum náðu þeir að pressa okkar menn töluvert og halda boltanum. - Í heildina var KR-liðið þó betra í leiknum. 
 
Næsti leikur er á heimavelli gegn Víkingum, næstkomandi laugardag. Leikurinn hefst klukkan 17. 

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012