KR - HK á laugardag - meiðslastaðan

Það verður aftur laugardagspartý í Pepsi Max deildinni. Í annarri umferð deildarinnar tekur KR á móti HK og fer leikurinn fram á heimavelli okkar, Meistaravöllum, laugardaginn 20. júní, og hefst kl 18. Í fyrstu umferðinni tapaði HK naumlega fyrir FH, 2-3, en KR vann Val 1-0. Leikir KR við HK í fyrra voru erfiðir, 3-2 sigur vannst á heimavelli en útileikurinn í Kórnum var skellur, 1-4 tap. 
 
Þrír leikmenn fóru meiddir út af í leiknum gegn Val: Pálmi Rafn Pálmason, framliggjandi miðvallarleikmaður, og miðverðirnir Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Finnur Tómas Pálmason. 
 
Samkvæmt heimildum síðunnar verður Finnur Tómas nær örugglega ekki með gegn HK og Arnór Sveinn er tæpur. Pálmi Rafn er hins vegar heill og verður með. 
 
Líklegt er að KR þurfi að stilla upp nýju miðvarðarpari í leiknum og þar eru reyndar ágætir kostir, til dæmis hinir þrautreyndu og traustu leikmenn, Gunnar Þór Gunnarsson og Aron Bjarki Jósepsson. 
 
 

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012