Beitir Ólafsson: Stóra prófið er í sumar

Beitir Ólafsson er nafn sem margir KR-ingar höfðu aldrei heyrt þegar hann gekk skyndilega til liðs við KR um mitt tímabil 2017, í kjölfar mikilla meiðsla hjá þáverandi markvörðum liðsins. Þeir sem grannt fylgjast með knattspyrnuheiminum vissu þó af kappanum sem hafði leikið nokkra leiki með U-19 ára landsliðinu og spilað með HK og Keflavík í næstefstu deild. Sjálfur var Beitir meðvitaður um hæfileika sína sem markvörður en er þarna var komið sögu stefndi hann út úr knattspyrnunni vegna aukinna anna við vinnu. Þegar kallið kom frá KR var hins vegar engin spurning í huga Beitis að helga sig aftur knattspyrnunni.

 

Hann stóð sig vel frá fyrsta leik með KR og varð vinsæll meðal stuðningsmanna. Hátindinum náði Beitir í fyrra þegar hann varð Íslandsmeistari með KR og valinn besti markvörður Íslandsmótsins. Beitir er samt langt frá því að vera saddur og þráir meiri velgengni. Hann vill nýta öll þau tækifæri sem enn kunna að vera í boði til að vinna sigra og titla með KR.

 

Blaðamaður settist niður með Beiti úti í KR-heimili í lok æfingar þriðjudaginn 2. júní og áður en byrjað var að fræðast um manninn sjálfan var talinu beint að stöðu KR-liðsins núna skömmu fyrir mót en liðið hefur langt frá því verið sannfærandi í tveimur æfingaleikjum undanfarið, gegn Stjörnunni og 1. deildar liði Keflavíkur.

 

„Ég held við séum á réttu róli og eigum bara eftir að toppa. Við finnum að við erum þungir og menn finna fyrir þreytu. Það eru þyngsli í löppunum. En ég held þetta sé bara allt eftir plani. Þetta er ekki besti tíminn til að gera rosalega góða hluti. En við verðum samt að vera klárir um helgina þegar við mætum Víkingum í leiknum Meistarar meistaranna,“ segir Beitir en næstkomandi sunnudag kl. 19 fer meistaraleikurinn fram á Meistaravöllum, heimavelli okkar KR-inga.

 

„Við erum að vinna með þetta PlayerTek dæmi þar sem endurheimtin og fleira er tölvumiðað og ekki bara farið eftir tilfinningunni. Þarna er aðeins verið að storka örlögunum, farið í tölvuna og séð hvenær við náum hámarki hjá hverjum og einum leikmanni, hvenær hvíldin þarf að koma inn og svo framvegis. Ég trúi því að þetta sé allt samkvæmt plani hjá okkur.“

 

Beitir hefur fulla trú á því að KR-liðið verði sprækt þegar flautað verður til leiks gegn Val þann 13. júní í opnunarleik Pepsi Max deildarinnar. Allir viti að mikil gæði séu í hópnum og það þurfi bara að laða þau fram á réttum tíma.

 

Fjölskyldufaðir og byggingaverktaki

Beitir er fæddur árið 1986 og er því á 34. aldursári. Hann býr með kærustu sinni og á tvö ung börn. Hann stundar atvinnu sem er líklega fremur sjaldgæf meðal knattspyrnumanna en hann rekur verktakafyrirtæki ásamt fjölskyldu sinni. Þar þarf hann oft að vinna líkamlega erfiða vinnu.

 

„Það fylgir því sveigjanleiki að starfa í fjölskyldufyrirtæki og ráða sér töluvert sjálfur. Einn daginn get ég verið að bisa við að færa til 200 kílóa rör en næsta dag er ég kannski bara í einhverju kósí dútli. Ég reyni að skipuleggja vinnuna þannig að ég sé ekki í svona erfiðum verkefnum daginn fyrir leik, þá miklu frekar daginn eftir leik. Auk þess er þetta þannig að ég vinn sleitulaust yfir veturinn en á sumrin hef ég þetta rólegra. En það hefur alveg komið fyrir að ég hef misst af æfingum út af vinnunni, það er kannski hádegisæfing og ég er staddur uppi á Hellisheiði.“ Þegar Beitir kemst ekki á æfingu er það bætt upp með aukaæfingu í kjölfarið.

 

 

Ekkert síður hungraður í titil en í fyrra

 

Beitir er fæddur og uppalinn í Kópavogi. Hann lék í yngri flokkum með ÍK og HK í Kópavogi og í meistaraflokki með síðarnefnda liðinu. Síðan tók við eitt tímabil með Keflavík, 2016, en þá var liðið í næstefstu deild. Þrjú síðustu árin hefur hann spilað með KR og þráir að vinna fleiri afrek með Vesturbæjarveldinu.

 

Beitir segir að hungrið í titla í sumar sé engu minna en í fyrra, meira ef eitthvað er. „Við erum með þroskað lið og það mun hjálpa okkur en við erum líka með einhverja unga stráka sem komu inn í liðið í fyrra þegar allt gekk svo vel. Ef það verður eitthvert mótæti í sumar þá er það prófraun fyrir þá. Þeir hafa gott af því að fá dálitla neikvæðni ef ekki gengur allt í haginn. Þá þarftu að sýna karakter og rífa þig upp úr því. Þá sér maður úr hverju einstaklingurinn er gerður,“ segir Beitir og er hér meðal annars að vísa í þær raddir stuðningsmanna sem hafa heyrst eftir tvo slaka æfingaleiki að undanförnu.

 

„Það er miklu erfiðara að verja titil og mér finnst þetta vera afskaplega heillandi áskorun. Það er rosalega verðugt og skemmtilegt verkefni að standa undir öllu því hrósi sem við fengum fyrir frammistöðuna síðasta tímabil. Ef sá tímapunktur er á annað borð til þegar rétt er að slaka á í fótbolta þá er það örugglega ekki þegar þú ert nýbúinn að vinna titil, því þá viltu sýna hvað virkilega í þér býr, þá kemur stóra prófið.“

 

Beitir telur jákvætt hvað stuðningsmenn KR eru kröfuharðir og hann er ánægður með hugarfar stuðningsmanna og hvatninguna sem liðið fær. „Maður stjórnar þessu sjálfur. Ef okkur gengur vel þá fáum við fólk með okkur. Mér finnst fullkomlega eðlilegt og í rauninni óhjákvæmilegt að áhuginn dofni þegar okkur gengur illa. Þó að það sé auðvitað jákvætt að styðja þegar á móti blæs þá er ekki spennandi að mæta á völlinn og fylgjast með liði sem tapar og er ekki í toppbaráttu.“

 

Beitir segir að margir einstakir sigrar hafi unnist í fyrra en leikirnir hafi verið mjög erfiðir. „Þetta voru minnisstæðir sigrar sem lifa áfram í minningunni og maður vill fá meira af því sama. Við slökuðum líka aldrei á í fyrra og þegar talað var um að við ættum erfiða leiki í lokin á móti efstu liðunum og því gæti þetta orðið spennandi, þá var aldrei spurning í okkar huga að við ætluðum að vinna alla þessa síðustu leiki. Það gerðum við líka. Menn slökuðu líka aldrei á við æfingar heldur lögðu sig 100% fram á öllum æfingum út tímabilið.“

 

Sigurhefðin og kröfurnar

 

„Það eru ekki allir sem geta séð myndir út um allt af glæstum afrekum þegar þeir ganga inn í félagsheimili liðsins síns. Ég vil vera hluti af þessari sigursögu sem er skráð á veggi KR-heimilisins. Ég er núna kominn á tvær myndir hérna inni og það er ógeðslega gaman. Svo koma alltaf ný markmið, mig langar til dæmis rosalega að ná 100 leikjum fyrir KR, vinna Íslandsmeistaratitilinn aftur, vinna meistara meistaranna og svo framvegis. Maður er ekki saddur og vill alltaf vera í besta liðinu.“

 

Beiti finnst afar eftirsóknarvert að vinna í þessu kröfuharða umhverfi og hluti af því eru háværar gagnrýnisraddir þegar ekki gengur vel. „Það eru ekki allir sem koma í KR sem þrífast á þessu. Margir sem koma inn í kröfuhörð lið koðna bara niður. Við þessar aðstæður finnur maður úr hverju menn eru gerðir og svona umhverfi er mjög góður undirbúningur fyrir til dæmis stráka sem fara síðan í atvinnumennsku til útlanda. Það þarf að læra að takast á við mótlætið.“

 

Neikvæðir og kröfuharðir stuðningsmenn eru því alls ekki vandamál í hugum Beitis: „Það verður enginn árangur ef öllum er sama. Kröfuharkan er mjög góð, það er bara gott að menn hafa skoðanir og geta komið þeim á framfæri.“ Beitir ítrekar að það komi ekkert annað til greina í ár en að vinna Íslandsmeistaratitilinn aftur. Hann kann virkilega að meta ástríðuna sem einkennir KR, leikmenn, þjálfara, starfsfólk og stuðningsmenn. Hann lítur á KR sem samfélag. „Þetta er frábært samfélag. Þetta er miklu meira en bara einhverjir leikmenn sem eru að spila á vellinum og það er svo gaman að taka þátt í þessu og vera hluti af þessu öllu.“

 

Sniðgengur tækniþróunina

 

Það hefur vakið athygli þeirra sem til þekkja að Beitir á ekki snjallsíma og notar aldrei slík tæki. Minnisblöð prentar hann út og festir á ísskápinn heima hjá sér.

 

„Ég vel að hverfa nokkur ár aftur í tímann í tækniþróuninni og vinna þar. Ég held að svona 90% af því sem fólk fær sent í gegnum snjalltæki sé bara kjaftæði sem enginn þarf á að halda. Það hjálpar mér að slaka á og halda hugarró að vera laus við svona áreiti. Satt að segja held að flestir hefðu gott af því að vera lausir við þetta þó að ég skilji að auðvitað þurfi sumt fólk á þessu að halda út af vinnu. Og það hefur alveg komið fyrir að ég hafi misst af fundum og þess háttar hjá liðinu af því ég var ekki að fylgjast með tilkynningum í einhveriu appi. En oftast kemur Rúnar skilaboðum til mín sem hinir strákarnir sjá í símunum sínum. Mér finnst líka rosalega fínt að hafa bara allt til minnis á ísskápnum, þá er hægt að skoða það þar, ræða hlutina og skipuleggja sig.“

 

Þess má geta að Beitir segist vera búinn að gera alla fjölskyldu sína að KR-ingum. „Maður þarf að lifa sig almennilega inn í þetta og það er um að gera að fá fólkið sitt til að taka þátt í þessu með manni.“

 

Áhugamál og ástríða ekki það sama

 

Það verður fátt um svör þegar Beitir er spurður um áhugamál. „Mér finnst fínt að dúlla mér bara eitthvað heima hjá mér þegar ég er í fríi.“ Hann nýtur þess að vera með fjölskyldunni og heillast föðurhlutverkinu, að fá að móta unga einstaklinga.

 

„Jú, ég hef alveg gaman af veiðum og við eigum lítinn bát. En það verður meiri tími til þess seinna. Þetta er ekki ástríða, eins og fótboltinn, hann gengur fyrir núna á meðan maður hefur tækifæri til að láta að sér kveða. Tómstundirnar fá sinn tíma seinna þegar ég er orðinn eldri.“

Mest lesið

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012