Frábær endir á Íslandsmótinu

KR vann sigur á Breiðablik í lokaleik Íslandsmótsins og jafnaði þar með eigið stigamet frá 2013, 52 stig. KR er með 14 stiga forystu á liðið sem endaði í öðru sæti, Breiðablik. Þetta eru miklir yfirburðir. Lokatölur leiksins í dag urðu 2-1. Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli.
 
Leikurinn þótti fremur tilþrifalítill en KR skoraði tvö lagleg mörk með stuttu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Fyrst skoraði Kennie Chopart eftir hornspyrnu sem hann hafði tekið sjálfur, en Tobias Thomsen gaf boltann á Kennie sem skaut frábæru skoti í fjærhornið. 
 
Kristján Flóki Finnbogason skoraði síðan með skalla eftir fasta fyrirgjöf frá Óskari Erni. 
 
Í síðari hálfleik sóttu Blikar meira og fengu einhver færi. Þeir minnkuðu muninn í 1-2 með marki úr vítaspyrnu sem dæmt var á Beiti markvörð. Sá dómur þótti skrýtinn en markið kom undir lok leiksins.
 
Fyrir nokkrum vikum var rætt um hið erfiða lokaprógramm KR gegn Val, FH og Breiðablik. Liðið var þá með sjö stiga forystu og rætt var um að spenna gæti hlaupið í lokakaflann ef KR tapaði gegn Val og Breiðablik ynni Stjörnuna. Niðurstaðan var hins vegar sú að KR vann alla síðustu leikina og undirstrikaði yfirburði sína yfir öðrum liðum þetta árið. KR er einfaldlega með langbesta liðið á landinu. 
 
Þá er áhugavert að hafa í huga að KR fékk fullt hús í leikjum gegn sterkum liðum á borð við Breiðablik. FH og Val. 
 
Framundan er haustfagnaður í KR-heimilinu í kvöld. Húsið verður opnað kl. 21
 
 
 
 
 
 

Finndu okkur á Facebook

Vefsíðugerð & vefhönnun: Smartmedia 2012