KA og KR gerðu markalaust jafntefli á Akureyri í dag. Stigið er þokkalega dýrmætt yfirr bæði lið. KR komst í 10 stiga forystu í bili en á mánudagskvöld keppa FH og Breiðablik, einu liðin sem geta náð okkur að stigum. KA fjarlægðist fallsæti með þessu jafntefli.
Óskar Örn Hauksson fékk besta færi í leiknum seint í seinni hálfleik er hann skaut yfir markið inni í teignum eftir mjög vel útfærða sókn. Annað dauðafæri sást ekki í leiknum.
KR gekk illa að skapa sér góðar sóknir og raunar batnaði það ástand ekkert er leið á leikinn. Varnarleikurinn var hins vegar traustur hjá báðum liðum.
Næsti leikur er á heimavelli gegn ÍA næsta sunnudag. Þá þurfum við sigur til að færast enn nær takmarkinu sem er Íslandsmeistaratitill.