KR sigraði Fjölni 3-2 í 20. umferð Pepsi-deildarinnar á Alvogen-vellinum. Líklega var þetta besti leikurinn sem spilaður hefur verið á þessum velli í sumar, hugsanlega að undanskildum Evrópuleiknum gegn Grasshopper. Frábær leikur tveggja sterkra liða þar sem KR var ívið sterkara og bauð upp á kraftmikinn sóknarleik á meðan skyndisóknir Fjölnismanna voru stórhættulegar og þeir voru afar sterkir í einvígjum.
KR byrjaði leikinn betur, hápressa liðsins og efnilegar sóknir gáfu góð fyrirheit. En Fjölnir náði forystunni gegn gangi leiksins með marki sem kom eins og köld vatnsgusa framan í KR-inga. Á 8. mínútu kýldi Stefán Logi markvörður boltann frá markinu en beint í höfuðið á Gunnari Má Guðmundssyni sem þar með kom gestunum yfir.
KR lét þetta ekkert á sig fá og sótti af krafti. Á 30. mínútu skoraði Kennie Chopart síðan flott mark með föstu skoti frá vítateig eftir sendingu frá Morten Back Andersen.
Óskar Örn kom okkur yfir í byrjun síðari hálfleiks með frábæru langskoti. En tæpum tveimur mínútum síðar var Fjölnir búinn að jafna er Níels Óskarsson fékk háa og langa sendingu inn í teiginn þar sem hann var óvaldaður og afgreiddi boltann upp í þaknetið.
KR hélt áfram að sækja. Í þessari frásögn því sleppt að nefna flest marktækifæri en þau voru nokkur, t.d. átti Pálmi Rafn þrumuskalla í stöngina eftir hornspyrnu og í sömu sókn átti Skúli Jón skalla sem bjargað var á línu.
Sigurmarkið kom á 71. mínútu er Morten Beck lagði boltann í hornið eftir góða sendingu frá Finni Orra Margerissyni.
Fjölnismenn reyndu ákaft að jafna leikinn og sköpuðu oft hættu inni í vítaveig KR en fengu fá ef nokkur mjög hættuleg færi. Á 88. mínútu fékk Fjölnismaðurinn Tobias Salquist rautt spjald fyrir gróft brot á Morten Beck og einum fleiri sigldu okkar menn sigrinum í höfn.
Næsti leikur er í Ólafsvík á sunnudaginn kl. 14. Lokaleikurinn er heima gegn Fylki. Evrópuvonin lifir enn.
Óskar Örn Hauksson var valinn maður leiksins.
Áhorfendur í dag voru rétt tæplega 1000 sem er framför frá síðustu leikjum. Stemningin var fín. Um 10 manna stuðningsmannasveit Fjölnis setti svip sinn á leikinn. Það fólk stóð sig vel en náði ekki að virkja aðra stuðningsmenn Fjölnis með sér - heldur virtist fremur kveikja í heimamönnum sem létu vel í sér heyra í stúkunni mestallan leikinn.